Ákall og áskoranir Vegsemd og virðing í skólastarfi

Höfundar

  • Sigrún Aðalbjarnardóttir

Útdráttur

Í þessari grein dreg ég fram þrennt sem mér er einkar hugstætt þegar ég huga að kennurum í samtíð og framtíð og faglegu hlutverki þeirra. Í fyrsta lagi mikilvægi þess að rækta borgaravitund ungs fólks á öllum skólastigum frá leikskóla til háskóla. Borgaravitund vísar hér til skilnings fólks á því hvað það þýðir að vera borgari með þeim lýðréttindum, skyldum og ábyrgð sem því fylgir að vera borgari í lýðræðissamfélagi. Þátttaka fólks í ákvörðunum um samfélagsmál er ein meginstoða lýðræðis og því mikilvægt á hverjum tíma að ala upp kynslóð sem hefur áhuga á og færni til að láta sig mál samfélagsins varða. Við að rækta borgaravitund barna og ungmenna er meðal annars brýnt að hlúa að samskiptahæfni þeirra, sið- ferðiskennd og tilfinningaþroska. Í öðru lagi fjalla ég um hve áríðandi er að styðja við starfsþroska kennara og skólaþróun á öllum skólastigum með því að hvetja til ígrundunar á starfinu og skapa námssamfélag. Með því styrkist menntunarsýn kennara og skólastjórnenda; markmið og gildi verða skýrari og starfshættir markvissari við að efla þroska og velferð nemenda. Fagauður (e. professional capital) í skólastarfi og menntamálum byggist þannig upp. Og í þriðja lagi ræði ég um hve brýnt er að efla sjálfsvirðingu kennara og efla virðingu samfélagsins fyrir þeim sem fagstétt. Þar held ég því fram að slík virðing í starfi sé mikilvægur þáttur farsæls og árangursríks skólastarfs við að mennta börn og ungmenni og búa þau undir þátttöku í sífellt flóknara samfélagi þjóða. Þessar þrjár framangreindar áherslur mynda kafla greinarinnar. Áherslurnar vefast saman og fela í sér ýmis tækifæri og áskoranir í uppeldi og menntun. Kallað er eftir samvinnu og samábyrgð stjórnvalda, kennaramenntunarstofnana, skóla og rannsakenda við að treysta kennaranám og skólaþróun og um leið virðingu fyrir kennurum sem fagstétt. 

Um höfund (biography)

Sigrún Aðalbjarnardóttir

Sigrún Aðalbjarnardóttir (sa@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 

Niðurhal

Útgefið

2016-12-04

Tölublað

Kafli

Ritstýrðar greinar