„Átthagarnir eru hverjum manni miðstöð heimsins“ Hugmyndir íslenskra skólamanna á síðasta hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu um grenndaraðferð í skólastarfi

Höfundar

  • Ruth Margrét Friðriksdóttir
  • Bragi Guðmundsson

Lykilorð:

grenndaraðferð, grenndarkennsla, kennsluaðferðir, skólamenn, skólasaga

Útdráttur

Viðfangsefni þessarar greinar eru hugmyndir íslenskra skólamanna um nýtingu grenndaraðferðar í skólastarfi á áratugunum kringum 1900. Gengið er út frá þremur rannsóknarspurningum: Hvaða hugmyndir höfðu íslenskir skólamenn um grenndaraðferð og grenndarkennslu í kringum aldamótin 1900? Hvernig birtust þessar hugmyndir og að hvaða marki í tímaritum á þeim tíma? Hverjar eru rætur hugmynda íslenskra skólamanna um nýtingu nánasta umhverfis til náms? Til að fá svör við þessum spurningum var byrjað á því að kanna efnisyfirlit skólaeða menntatímarita og fáeinna annarra rita og skoða vandlega allar greinar sem bera heiti er benda til þess að í þeim sé eitthvert efni sem tengist grenndaraðferð eða grenndarkennslu. Sú leit bar umtalsverðan árangur og frá niðurstöðum hennar segir hér á eftir. Í þeirri umfjöllun er lítill greinarmunur gerður á hugtökunum grenndarkennslu og grenndaraðferð þótt það fyrrnefnda vísi til þess þegar áhersla er lögð á að kenna nemendum um grenndina en grenndaraðferð til þess þegar viðfangsefni úr nágrenni eru nýtt sem uppspretta hugmynda eða samanburðar við kennslu. Rannsóknaraðferðin er í eðli sínu söguleg og framsetning efnisins einnig. Í ljós kemur að íslenskir skólamenn höfðu margar og býsna fjölbreyttar hugmyndir um ágæti þess að nýta grenndina við kennslu og rökstuddu kosti þess gjarnan með vísun í uppeldisfræðileg sjónarmið. Í skrifum nokkurra þeirra má jafnframt greina sterka þjóðerniskennd, tengsl við vaxandi félagshreyfingar og áherslu á ættjarðarást. Helstu námsgreinar sem höfundar tengja við grenndaraðferð eða grenndarkennslu eru saga, náttúrufræði, landafræði og átthagafræði.

Um höfund (biographies)

Ruth Margrét Friðriksdóttir

Ruth Margrét Friðriksdóttir (ruthmargret@hotmail.com) er meistaranemi við kennaradeild Háskólans á Akureyri og starfar við kennslu við Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði. Hún lauk B.Ed.-prófi í júní 2013. Rannsóknaráherslur hennar beinast aðallega að læsi og nýtingu grenndaraðferðar við nám og kennslu leikog grunnskólabarna.

Bragi Guðmundsson

Bragi Guðmundsson (bragi@unak.is) er prófessor í sagnfræði við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hann er með cand.mag.-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands auk kennsluréttinda og starfaði í þrettán ár sem framhaldsskólakennari. Rannsóknaráherslur Braga hafa lengi beinst að grenndarfræðum og nýtingu grenndaraðferðarinnar við nám og kennslu á öllum skólastigum. Önnur áherslusvið hans tengjast einkum skólasögu og samvitundarfræðum. 

Niðurhal

Útgefið

2016-12-04

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar