Viðhorf kennara til ákvarðanatöku nemenda í hönnun og smíði

Höfundar

  • Gísli Þorsteinsson
  • Brynjar Ólafsson

Lykilorð:

hönnun og smíði, aðalnámskrá grunnskóla, ákvarðanataka nemenda, viðhorf kennara

Útdráttur

Greinin fjallar um rannsókn á viðhorfum grunnskólakennara til ákvarðanatöku nemenda í námsgreininni hönnun og smíði. Í rannsókninni var einkum horft til nemenda á aldrinum 12 til 14 ára og könnuð tækifæri sem kennarar í greininni veita þeim til að taka eigin ákvarðanir. Fjallað var um viðhorf kennaranna til kennarahlutverksins og hvaða möguleika þeir töldu sig hafa til þess að ýta undir og þroska færni nemenda að þessu leyti. Rannsóknin fór fram í tveimur áföngum skólaárið 2010–2011. Í fyrri áfanga var gaumgæfð aðalnámskrá grunnskóla í hönnun og smíði en þar er ásamt öðru fjallað um áfangamarkmið sem lúta að ákvarðanatöku. Í síðari áfanga voru tekin hálfopin viðtöl við tíu grunnskólakennara í hönnun og smíði. Leitað var eftir viðhorfum kennaranna til ákvarðanatöku af hálfu nemenda og athugað hvort kennarar veittu nemendum tækifæri til sjálfstæðra ákvarðana. Einnig var rannsakaður skilningur kennara á mikilvægi þess að veita nemendum svigrúm til ákvarðana og því hlutverki menntunar að stuðla að ákvörðunum nemenda um eigin athafnir. Könnuð var sýn kennara á aðalnámskrá og innt eftir hugmyndum þeirra um áhrif hennar á skólastarf. Af niðurstöðum rannsóknarinnar má álykta að aðalnámskrá grunnskóla í hönnun og smíði frá 2007 bjóði upp á mörg tækifæri til þess að taka ákvarðanir um hönnun og smíði verkefna. Kennarar telja hins vegar að námskráin geri kröfur sem erfitt sé að mæta í skólastarfi. Nemendur leita sjaldan að upplýsingum og setja sér ekki viðeigandi viðmið heldur treysta á kennarann og fyrri reynslu. Kennararnir telja nauðsynlegt að setja ákveðnari kröfur í námskrá en líta líka svo á að leiðbeina þurfi kennurum um þessi efni. Gera þarf frekari rannsóknir á áhrifum kennara og skoða nánar stöðu nemenda til að dýpka skilning á því hvernig aðalnámskrá grunnskóla og hagkvæmnissjónarmið móta hugmyndir kennara um ákvarðanatöku nemenda við hönnun og smíðar.

Um höfund (biographies)

Gísli Þorsteinsson

Gísli Þorsteinsson (cdt@hi.is) er dósent í hönnun og smíði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsgráðu frá Háskólanum í Loughborough á Englandi 2011 og fjallaði þá um notkun veflægs námsumhverfis til að styðja við hugmyndamyndun barna í nýsköpunarmennt. Rannsóknarviðfangsefni Gísla um þessar mundir tengjast sögulegum bakgrunni uppeldismiðaðrar handmenntakennslu á Íslandi og notkun nýrrar tækni í menntun.

Brynjar Ólafsson

Brynjar Ólafsson (brynjar@hi.is) er aðjunkt í hönnun og smíði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Að kennaraprófi loknu lauk hann eins árs viðbótarnámi í kennslufræði list og verkgreina við Háskólann í Telemark og meistaragráðu í uppeldis og menntunarfræði frá Háskóla Íslands. Meginrannsóknarsvið hans og áhugi eru verklegar áherslur í menntun barna og unglinga svo sem í handmenntum, útikennslu og samþættingu námsgreina

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar