Tónlistarþroski ungbarna og tónlistaruppeldi - Yfirlitsgrein

Höfundar

  • Helga Rut Guðmundsdóttir

Lykilorð:

tónlistarþroski, tónlistarmenntun, tónlistaruppeldi, tónlist með ungum börnum, tónlistarrannsóknir, tónlistarfærni ungbarna

Útdráttur

Þeir sem verja tíma með ungum börnum komast fljótt að því að tónlist hefur mikið aðdráttarafl snemma á ævinni. Tónlist vekur gjarnan sterk viðbrögð ungbarna, hvort sem um er að ræða söng, hljóðfæraflutning, tónlist úr hljómflutningstækjum eða leikföngum. Oft vekur tónlist taktfastar hreyfingar og jákvæð tilfinningaviðbrögð hjá börnum og getur sú hegðun verið áþekk frjálsum dansi eldri barna og fullorðinna. Innan nútíma tónlistarsálfræði er almennt viðurkennt að manneskjan virðist gædd tónlistarhæfni frá fæðingu í þeim skilningi að hún býr yfir hæfni til að skynja, greina og læra tónlist. Einnig reynist tónlist vera öflugur miðill tilfinninga og getur haft bein áhrif á líðan. Í þessari grein er skoðað hversu mikið er vitað um tónlistarhæfni ungbarna og hvernig slík þekking gæti verið upplýsandi varðandi hlutverk tónlistar og tónlistaruppeldis á fyrstu árum barnsins. Farið er yfir helstu niðurstöður rannsókna á tónskyni ungbarna á fyrsta ári og fyrstu tilburðum þeirra til tónlistarlegrar hegðunar. Því er lýst hvernig almennt tónlistaruppeldi og skipulögð tónlistariðkun með ungbörnum getur tekið mið af þekkingu á næmi ungbarna fyrir tónlist. Af skipulögðum rannsóknum á ungbörnum má draga þann lærdóm að vanmeta ekki tónlistar og vitsmunalega hæfni ungbarna. Niðurstöður rannsókna benda til þess að tónlist sem ungbörn heyra mótar næmi þeirra fyrir viðkomandi tónlistarhefðum og því sé vert að huga að fjölbreyttri tónlist í umhverfi barna. Draga má þann lærdóm af fræðunum að tónlist geti orðið að liði í daglegum samskiptum við börn án þess að orðum sé beitt. Með þekkingu og færni er unnt að virkja eðlislæga tónlistarhneigð ungra barna og hafa áhrif á líðan þeirra og hegðan. Að lokum er bent á að foreldrar og aðrir uppalendur geti á byggt á því, sem fræðimenn kalla meðfædda þörf ungbarna til músíkalskra samskipta, og stuðlað með að félagslegum og tónlistarlegum þroska. 

Um höfund (biography)

Helga Rut Guðmundsdóttir

Helga Rut Guðmundsdóttir (helgarut@hi.is) er lektor í tónmennt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.prófi með tónmennt sem valgrein frá Kennaraháskóla Íslands árið 1992. Meistaraprófi í tónlistarmenntunarfræðum lauk hún frá McGillháskóla í Montreal, Kanada árið 1997 og doktorsprófi frá sama skóla 2003. Rannsóknir Helgu Rutar hafa verið á sviði tónskynjunar og tónlistarmenntunar. Frá 2004 hefur hún starfrækt tónlistarnámskeið fyrir ung börn og foreldra

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar