„Það sem við vildum gera var að breyta ástandinu“: Fjarkennsla í kennaramenntun sem hvati skólaþróunar

Höfundar

  • Þuríður Jóhannsdóttir

Lykilorð:

kennaranám með starfi í skóla, Internet í kennaranámi, skólaþróun, samábyrgð, samvinna

Útdráttur

Efnisorð Í greininni er lýst upphafi heildstæðs kennaranáms í fjarnámi sem fyrst bauðst í Kennaraháskóla Íslands árið 1993. Þörf fyrir fjarnám spratt af skorti á kennurum með réttindi, einkum á landsbyggðinni. Kennaranemar unnu flestir sem kennarar heima í héraði á meðan þeir stunduðu námið. Það var skipulagt í nokkrum staðbundnum lotum á ári en þess á milli stunduðu nemar námið heima og áttu samskipti við kennarana í gegnum Internetið. Tilgangur greinarinnar er að auka skilning á tilurð fjarnámsins og varpa ljósi á hvernig þátttaka kennaranema í fjarnáminu styrkti þá í að efla skólaþróun í heimaskólum sínum. Gögnin sem rannsóknin byggir á eru skráðar heimildir og ýmis skjöl sem varpa ljósi á samspil ýmissa þátta í íslensku samfélagi sem urðu til þess að fjarnáminu var komið á fót. Þá var farið í heimsókn í nokkra skóla á landsbyggðinni og tekin viðtöl við nokkra þeirra fjarnema sem voru í fyrsta hópnum og þessi viðtöl eru notuð til að lýsa þróun fjarnámsins á fyrstu árunum frá sjónarhóli fjarnemanna sjálfra. Kenningin um víkkað nám (Engeström, 1987, Engeström og Sannino, 2010) var notuð sem fræðilegur rammi við greiningu gagnanna. Litið er svo á að fjarnámið sé nýjung í kennaramenntun sem komi fram sem svar við viðvarandi svæðisbundnum kennaraskorti. Niðurstöður benda til að mikilvægur þáttur í að greiða fyrir því að koma fjarnáminu á fót hafi verið samábyrgð aðila á ýmsum stigum innan skólakerfisins á landsbyggðinni og samvinna þeirra við Kennaraháskólann. Frá sjónarhóli fjarnemanna var lítið samband við kennarana vandamál sem þeir lærðu að takast á við með því að mynda hópa til að styðja hver annan, deila þekkingu og reynslu og vinna saman að verkefnum. Því er haldið fram að þessi þróun, sem var í vaxandi mæli studd af þróun í samskiptum á netinu, hafi verið mikilvægur liður í að móta þetta nýja form sem fjarnám kennara var. Því er ennfremur haldið fram að fjarnemar sem unnu við kennslu í skólum hafi fært með sér nýja þekkingu úr kennaranáminu inn í skólana og með því stuðlað að skólaþróun í sinni heimabyggð.

Um höfund (biography)

Þuríður Jóhannsdóttir

Þuríður Jóhannsdóttir (thuridur@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í uppeldis og menntunarfræðum frá háskóla Íslands árið 2010. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að fjarnámi eða blöndu af stað og netnámi einkum í kennaramenntun og tengslum kennaramenntunar í háskóla og skólaþróunar á vettvangi skólanna. Hún hefur sérhæft sig í beitingu menningarsögulegrar starfssemiskenningar til að varpa ljósi á tengsl starfsþróunar kennara sem einstaklinga og hópa og kerfisþróunar í skólum og kennaramenntunarstofnunum.

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar