Rannsóknarmenning í mótun 1998–2004: Tilviksrannsókn við samruna stofnana í kennaramenntun á Íslandi

Höfundar

  • Allyson Macdonald

Lykilorð:

samruni stofnana, stofnanamenning, rannsóknarmenning, rannsóknir, fræðistörf, kennaramenntun

Útdráttur

Markmið rannsóknarinnar sem hér er lýst er að greina þætti, sem höfðu áhrif á rannsóknarumhverfi og starfsanda við Kennaraháskóla Íslands fyrstu sex árin eftir sameiningu fjögurra stofnana í nýjum skóla, 1998–2004. Fyrir sameiningu árð 1998 var Kennaraháskóli Íslands eina stofnunin þar sem rannsóknir voru skilgreindur þáttur í störfum starfsmanna. Rannsóknin byggir á greiningu birtra upplýsinga, sem og samantektum á rannsóknarstarfsemi árin 1998–2004 til að lýsa innri samlögun og aðlögun að ytra umhverfi og samverkun þessara tveggja þátta. Verkfæri, grunnforsendur og yfirlýst gildi mynda grundvöll að mótun menningar við hina nýju stofnun (Schein, 2010). Reynt var að styrkja innviði rannsókna á meðan starfsfólk reyndi að mæta kröfum um að stunda rannsóknir (e. discovery). Stjórnunarhættir sem veittu stuðning og hvatningu til rannsókna voru teknir upp. Ástæður starfsfólks til að stunda rannsóknir mótuðust af og höfðu áhrif á innra umhverfi stofnunarinnar. Ytra rannsóknarumhverfi, einkum breytingar í Háskóla Íslands og stefnu hins opinbera í vísindum og tækni, hafði einnig áhrif á stofnanamenninguna. Samspil samlögunar og aðlögunar kemur glöggt fram í beiðni um úttekt á menntarannsóknum á Íslandi og á þróun rannsóknarstefnu. Það var ekki endilega samræmi á milli tilhneigingar starfsfólks til að vinna að samþættingu (e. integration) og beitingu (e. application) þekkingar samkvæmt skilgreiningu Boyer (1990) og ytri þrýstings um að stunda grunnrannsóknir (e. discovery). Togstreitan var að hluta til komin vegna löngunar starfsfólks til að veita þjónustu og kröfu yfirvalda um að stunda frekar grunnrannsóknir en hagnýtar rannsóknir. Starfsandinn einkenndist af varkárni og bjartsýni með keim af undirgefni. Stofnunin og starfsfólkið vildi standa sig vel í rannsóknum.

Um höfund (biography)

Allyson Macdonald

Allyson Macdonald (allyson@hi.is) er fædd og uppalin í Suður Afríku þar sem hún lauk B.Sc.(Hons.)g ráðu í eðlisfræði við University of the Witwatersrand í Jóhannesarborg vorið 1976. Þá um haustið hélt hún til Bandaríkjanna þar sem hún stundaði framhaldsnám í kennslufræðum vísinda við Oregon State University. Hún lauk MSnámi vorið 1977 og útskrifaðist með Ph.D.gráðu 1981. Hún flutti til Íslands með íslenskum manni sínum haustið 1983 og bjó í Skagafirði þar sem hún starfaði við rannsóknir og kennslu og vann fyrir Fræðslumiðstöð Norðurlands vestra. Allyson fluttist til Malaví með fjölskyldu sinni í byrjun árs 1992 og starfaði þar sem ráðgjafi við fræðsluverkefni í sunnanverðri Afríku til ársins 1996. Eftir heimkomuna veitti hún Skólaskrifstofu Skagfirðinga forstöðu fram á haustið 1998 þegar hún fluttist til Reykjavíkur og hóf störf við Kennaraháskóla Íslands. Hún var forstöðumaður Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands frá 1999 til 2004 og hefur verið prófessor við Kennaraháskólann og síðar Menntavísindasvið Háskóla Íslands frá árinu 2001.

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar