Ensk ritun á framhaldskólastigi: Tilraun um námskeið

Höfundar

  • Birna Arnbjörnsdóttir
  • Patricia Prinz

Lykilorð:

akademísk enska, viðhorf nemenda, kennsla í ritun

Útdráttur

Nýlegar rannsóknir á stöðu enskukennslu og enskunáms í framhaldsskólum benda til þess að meiri áherslu vanti á akademíska ensku, bæði ritaða og talaða (Anna Jeeves, 2013; Birna Arnbjörnsdóttir, 2011; Birna Arnbjörnsdóttir og Hafdís Ingvarsdóttir, 2010; Robert Berman, 2011). Ósamræmi virðist vera milli áherslna í kennslu á framhaldsskólastigi og þarfa nemenda í háskólastarfi eða atvinnulífinu. Nemendur í framhaldsskólum almennt virðast hafa ánægju af enskunámi en kvarta yfir því að enskunámið bæti litlu við þá ensku sem þau læra utan skólans sem er almennt talmál sem þau heyra oftar en þau beita því í samskiptum og þegar í háskóla er komið, vanti upp á enskukunnáttuna (Anna Jeeves, 2010, 2013). Rannsóknir á enskufærni háskólanema styðja þessi viðhorf en liðlega þriðjungur stúdenta á erfitt með að tileinka sér texta á ensku (Birna Arnbjörnsdóttir og Hafdís Ingvarsdóttir, 2010). Til að mæta þörfum íslenskra nemenda hefur námsbraut í ensku við Háskóla Íslands þróað röð námskeiða í akademískri ensku bæði fyrir enskunema og aðra háskólastúdenta. Í framhaldi af því var ákveðið að aðlaga eitt ritunarnámskeiðanna að þörfum framhaldsskólanema og prófa í framhaldsskóla á StórReykjavíkursvæðinu. Ritunarkennslan byggir á fjórum grunnstoðum: vitundarvakningu á mismunandi málsniðum, kynningu og dæmum, æfingu og mikilli ritun. Matið leiddi í ljós að nemendum fannst ýmislegt skemmtilegra en að fást við ritun, til dæmis að horfa á kvikmyndir, en áttuðu sig á notagildi verkefna sem þjálfuðu færni í enskri akademískri ritun fyrir framtíðina.

Um höfund (biographies)

Birna Arnbjörnsdóttir

Birna Arnbjörnsdóttir (birnaarn@hi.is) er prófessor í annarsmálsfræðum við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Birna lauk doktorsprófi í almennum málvísindum frá Texasháskóla í Austin í Bandaríkjunum. Hún stýrir rannsóknarverkefninu, Enska í nýju íslensku málumhverfi, sem stutt er af RANNÍS og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

Patricia Prinz

Patricia Prinz (pprinz@mercy.edu) er dósent í læsi og fjöltyngisfræðum við Mercy College í New York. Hún lauk doktorsprófi í uppeldisfræði með áherslu á læsi, tungumál og menningarfræði frá Bostonháskóla. Patricia hefur einnig starfað sem ráðgjafi og fyrirlesari á vegum Fulbrightstofnunarinnar víða um heim. Hún hefur aðallega haldið fyrirlestra um læsi og akademíska ensku, meðal annars við námsbraut í ensku við Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2016-12-03

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar