Nýsköpunarmennt í leikskólastarfi - Hugmyndir barna um hönnun leikskólalóðar

Höfundar

  • Sara Margrét Ólafsdóttir
  • Svanborg Rannveig Jónsdóttir

Lykilorð:

Nýsköpunarmennt, leikskóli, hugmyndir barna, þátttaka, valdefling

Útdráttur

Nú á tímum er oftar en áður leitað eftir þátttöku barna við að móta það samfélag sem þau búa í. Börn eru talin sterk og hæf til þess að láta skoðanir sínar í ljós og þau hafa rétt til þess að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Aðferðir nýsköpunarmenntar hafa verið notaðar með börnum til þess að ýta undir að börn séu virkir þátttakendur í námi sínu og fái tækifæri til þess að móta og koma á framfæri nýjum hugmyndum.
Markmiðið með því verkefni sem hér er sagt frá var að nýta aðferðir nýsköpunarmenntar til þess að laða fram hugmyndir leikskólabarna um endurskipulagningu og hönnun leikskólalóðar. Þátttakendur voru 4-5 ára börn í leikskóla sem staðsettur er á landsbyggðinni. Börnin notuðu fjölbreyttar aðferðir til þess að þróa hugmyndir sínar og gera þær sýnilegar og fengu stuðning við að koma þeim á framfæri til hönnunaraðila. Börnin tóku ljósmyndir, teiknuðu myndir og umræða þeirra um myndirnar voru skráðar. Þau sóttu síðan fund skipulags- og byggingafulltrúa og kynntu hugmyndir sínar og hann sá til þess að þær væru notaðar við endurhönnun lóðarinnar.
Börnin sýndu að þau voru fær um að koma með nytsamlegar hugmyndir og voru ánægð með þær og stolt af þeim. Börnin fundu því fyrir áhrifamætti og valdefldust við þátttökuna. Þegar lagðar voru saman hugmyndir barnanna, starfsfólks leikskólans og hönnunaraðila var niðurstaðan að þeirra mati vel heppnuð leikskólalóð þar sem börn og starfsfólk una sér vel í leik og starfi. Þetta verkefni er dæmi um hvernig hægt er að vinna með aðferðir nýsköpunarmenntar í leikskóla til þess að koma hugmyndum barna á framfæri, ýta undir sköpunarfærni þeirra og efla trú þeirra á að þau geti haft áhrif á umhverfi sitt.

Um höfund (biographies)

Sara Margrét Ólafsdóttir

Sara Margrét Ólafsdóttir (smo10@hi.is) lauk B.Ed. í leikskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2003 og M.Ed. í Menntunar- og kennslufræðum ungra barna árið 2013. Hún er doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en vinnuheiti doktorsverkefnisins er „Viðhorf barna til athafna sinna í leikskólanum.“ Sara Margrét hefur tekið þátt í rannsóknarsamstarfi á vegum RannUng (Rannsóknarstofa í Menntunarfræðum ungra barna) um vellíðan barna í leikskóla. Auk þess er hún þátttakandi í rannsóknarsamstarfi sem heitir POET (Pedagogies of Educational Transitions) þar er áhersla á að skoða samfellu í skólastarfi frá mismunandi sjónarhornum.

Svanborg Rannveig Jónsdóttir

Svanborg Rannveig Jónsdóttir (svanjons@hi.is) er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1978 með íslensku og dönsku sem aðalgreinar. Hún lauk M.A.-prófi í uppeldis-og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2005 með áherslu á nýsköpunarmennt. Árið 2011 lauk hún doktorsnámi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er titill doktorsritgerðar hennar The location of innovation education in Icelandic compulsory schools. Rannsóknir hennar eru á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar, námskrárfræða, skapandi skólastarfs, breytingastarfs í skólum og kennaramenntunar.

Niðurhal

Tölublað

Kafli

Ritstýrðar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)