Sumarlokun leikskóla - Áhrif á faglegt starf og starfsaðstæður

Höfundar

  • Anna Elísa Hreiðarsdóttir
  • Eygló Björnsdóttir

Lykilorð:

rekstrarumhverfi leikskóla, sumarlokanir, elstu börnin í leikskólanum, aðlögun, starfsaðstæður

Útdráttur

Í þessari grein er fjallað um sumarlokun leikskóla og hvernig ákvarðanir rekstraraðila tengdar þeim geta haft áhrif á faglegt starf í skólunum og starfsaðstæður kennara og barna. Börn á leikskólaaldri eru ekki skólaskyld og foreldrar greiða fyrir vistun þeirra, því er rekstrarlega mikilvægt að taka inn ný börn sem allra fyrst svo greiðslur falli ekki niður. Rekstrarlegir þættir þrýsta á um fulla nýtingu allan ársins hring og það skapar sérstakar aðstæður sem ekki eru fordæmi fyrir á öðru skólastigi.
Greinin byggir á rannsókn sem framkvæmd var vorið 2011. Spurningakönnun var lögð fyrir 110 leikskólastjóra en það er tæplega 40% leikskólastjóra í landinu og var svörunin 60%. Markmið hennar var að kanna áhrif sumarlokunar á starf og starfsaðstæður í leikskólum. Skortur er á íslenskum rannsóknum á starfsumhverfi leikskóla í landinu og takmörkuð þekking fyrirliggjandi, ekki hvað síst um samspil ytri ákvarðana og faglegs starfs. Því er efnið sem hér um ræðir mikilvægt innlegg í bæði fræðilega og rekstrarlega umræðu um málefni leikskóla.
Helstu niðurstöður eru að það skiptir máli fyrir starfið í leikskólunum hvort þeir loka að sumrinu eður ei, hve lengi þeir loka og á hvaða tímabili. Það eru oftast rekstraraðilar sem taka ákvarðanir um hvernig sumarlokun er háttað. Ákvarðanir eru pólitískar og geta breyst frá ári til árs, jafnvel vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum; atvinnurekendum og foreldrum. Það er síðan á ábyrgð skólastjóra að vinna úr aðstæðum hverju sinni. Í niðurstöðum gætir ákveðinna þversagna. Skólastjórar hafa orð á margvíslegum áhrifum ytri ákvarðana en telja þær ekki hafa mikil áhrif á faglegt starf. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mikilvægt sé að skoða betur áhrif sumarlokunar á faglegt starf skólanna og starfsaðstæður kennara og barna.

Um höfund (biographies)

Anna Elísa Hreiðarsdóttir

Anna Elísa Hreiðarsdóttir (annaelisa@unak.is) er lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún brautskráðist frá Fósturskóla Íslands árið 1990 sem fóstra, lauk B.Ed.-gráðu frá Háskólanum á Akureyri árið 2000 og M.Ed.- prófi sex árum síðar frá sama skóla. Anna Elísa starfaði um árabil sem leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri og deildarstjóri í leikskóla. Rannsóknir hennar og þróunarverkefni snúa meðal annars að foreldrasamstarfi í leikskóla, jafnréttiskennslu yngri barna og starfi með elstu börnum leikskólans.

Eygló Björnsdóttir

Eygló Björnsdóttir (eyglob@unak.is) er dósent við kennaradeild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1971 og starfaði sem grunnskólakennari við Barnaskóla Vestmannaeyja um árabil. Eygló lauk meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á tölvu- og upplýsingatækni frá Kennaraháskóla Íslands árið 2003. Helstu rannsóknaráherslur hennar eru menntarannsóknir, notkun upplýsingatækni í námi og kennslu, fjarkennsla, grenndarkennsla og námsefnisgerð.

Niðurhal

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar