Undirbúningur framhaldsskólanemenda fyrir notkun ensku í háskólanámi - Námskrár og nýtt íslenskt málumhverfi

Höfundar

  • Gerður Guðmundsdóttir
  • Birna Arnbjörnsdóttir

Lykilorð:

akademísk enska, kennsla ensku, námskrár, nýtt íslenskt málumhverfi

Útdráttur

Í þessari grein er varpað ljósi á ákveðið misræmi sem myndast hefur milli opinberrar stefnu í kennslu ensku og breyttrar stöðu ensku í íslensku málumhverfi. Rýnt er í nýlegar rannsóknir á stöðu ensku á Íslandi, á viðhorfum íslenskra nemenda til gagnsemi enskunáms í framhaldsskóla og viðhorfum nemenda í Háskóla Íslands til eigin færni til að takast á við námsefni á ensku (Anna Jeeves, 2010; Birna Arnbjörnsdóttir og Hafdís Ingvarsdóttir, 2010). Þær rannsóknir gefa vísbendingu um að um þriðjungur nemenda eigi í erfiðleikum með að skilja námsbækur á ensku í háskólanámi en um 90% námsefnis á háskólastigi er á ensku. Í þessari rannsókn er reynt að varpa frekara ljósi á þann undirbúning sem nemendur fá í framhaldsskólum. Í þeim tilgangi eru skoðaðar áherslur og inntak áfanga í ensku í tveimur aðalnámskrám og fjórum nýlegum skólanámskrám, einkum með tilliti til áherslu á akademíska ensku. Í ljós kemur að hvorki í aðalnámskrá frá 1999 né 2011 er lögð sérstök áhersla á að undirbúa nemendur fyrir lestur námsefnis í há- skólanámi. Í nýjum skólanámskrám eru hins vegar áfangar þar sem lögð er áhersla á markvissan undirbúning af þessu tagi. Höfundar telja að meiri áhersla þurfi að vera á akademíska ensku í framhaldsskólum og að slík enska eigi jafnvel heima á fjórða hæfniþrepi en ekki því þriðja sem er hæsta hæfniþrep fyrir erlend tungumál samkvæmt núgildandi námskrá. Þá er bent á að gera þurfi skýrari greinarmun á færni til að lesa fræðigreinar og bókmenntatexta og að mikil áhersla á efri stigum á bókmenntir geti verið á kostnað annars konar textategunda (e. genre). Einnig er sett fram sú spurning hvort ekki þurfi að setja ákveðnari og skýrari viðmið en nú er um færni í ensku til að hefja háskólanám á Íslandi og erlendis. Lesþjálfun nemenda á framhaldsskólastigi þyrfti því að vera markvissari til að undirbúa þá til að takast á við ýmsar gerðir texta sem líklegt er að þeir þurfi að glíma við í námi og starfi.

Niðurhal

Útgefið

2015-09-13

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)