Að uppfæra Ísland - Sýn stjórnenda íslenskra framhaldsskóla á nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og framkvæmd námssviðsins í námskrárfræðilegu ljósi

Höfundar

  • Svanborg R. Jónsdóttir
  • Meyvant Þórólfsson
  • Jóhanna Karlsdóttir
  • Gunnar E. Finnbogason

Lykilorð:

nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, sköpun, frumkvæði, námskrárfræði, námskrárhugmyndastefna

Útdráttur

Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt (NFM) hefur verið kynnt sem menntun er þjónar efnahagslegum þörfum samfélagsins en á seinni árum einnig sem menntun sem getur eflt einstaklinginn sem skapandi og gagnrýninn þjóðfélagsþegn. Margvísleg tækifæri má sjá í núgildandi námskrá framhaldsskóla fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlamennt þó svo að námssviðið hafi ekki verið kynnt sem sérstök námsgrein eða skilgreindir áfangar þar. Haustið 2012 hófu Nýsköpunarmiðstöð Íslands og tvö ráðuneyti ásamt fleiri samstarfsaðilum sameiginlegt átak um að efla þátt þessa námssviðs í framhaldsskólum. Samstarfið hófst með könnun á núverandi stöðu námssviðsins. Vefkönnun var lögð fyrir stjórnendur framhaldsskóla, þar sem með- al annars var spurt um stöðu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar í hverjum skóla fyrir sig, afstöðu stjórnenda til námssviðsins og þáttar þess í kennaramenntun og hvernig þeir myndu skilgreina það. Svanborg R. Jónsdóttir annaðist greiningu gagna í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Í framhaldi af því fengu höfundar þessarar greinar og Rannsóknarstofa um námskrá, námsmat og námsskipulag (NNN) leyfi til að greina niðurstöður opinna spurninga nánar með hliðsjón af flokkunarkerfi Michael Schiro (2008) í námskrárfræðum. Niðurstöðurnar gefa til kynna að stjórnendur sjái margvísleg tækifæri felast í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og skilgreina flestir námssviðið í anda nemendamiðaðrar námskrár og samfélagsmiðaðrar námskrár. Nánar voru rannsökuð tvö tilvik um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í skólastarfi og leiddu þau í ljós sterka tengingu við samfélag og jafnframt áherslu á skapandi og sjálfstæða hugsun.

Niðurhal

Útgefið

2015-09-13

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)