Kennsluhættir í grunnskólum Reykjavíkur - Niðurstöður ytra mats

Höfundar

  • Birna Sigurjónsdóttir

Útdráttur

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur gert heildarmat (ytra mat) í grunnskólum borgarinnar allt frá árinu 2007. Nær allir grunnskólar borgarinnar hafa verið heimsóttir og kennslustundir verið metnar út frá viðmiðum um gæði. Einnig hefur verið merkt við hvaða kennsluhættir einkenndu stundirnar. Frá byrjun árs 2009 hafa 1.066 kennslustundir verið metnar og greindar, þar af hafa 75% verið metnar góðar eða frábærar, rúmlega 22% viðunandi og tæplega 3% óviðunandi. Greining á kennsluháttum í þessum rúmlega þúsund stundum sýnir að langalgengast er að nemendur vinni að verkefnum undir beinni stjórn kennara og hlusti á fyrirlestur eða innlögn hans. Kennarinn er þannig í aðalhlutverki sem fræðari og stýrir námi nemenda að því marki að sömu lausnir komi fram hjá öllum nemendum. Greining kennsluhátta eftir námsgreinum sýnir að kennarastýring er enn meiri í bóklegum greinum en list- og verkgreinum. Markviss samvinna nemenda, það er að þeir vinni að sameiginlegu viðfangsefni og komist að sameiginlegri niðurstöður, sást í 12% stunda og sjálfstæð vinna nemenda að einhverju leyti að eigin vali í 10%. Þemavinna er algengust í samfélagsgreinum og tilraunir sjást helst í náttúrugreinum, en einnig í þessum greinum eru algengustu kennsluhættirnir verkefnavinna og innlögn kennara. Lítill munur er á kennsluháttum eftir aldri nemenda. Í öllum aldurshópum er verkefnavinna undir stjórn kennara algengust en bein kennsla eða innlögn er þó heldur algengari á unglingastigi en hjá yngri nemendum. Samkvæmt þessum niðurstöðum úr vettvangsathugunum í rúmlega eitt þúsund kennslustundum vantar mikið upp á þá fjölbreyttu kennsluhætti sem mikil áhersla er lögð á í nýrri aðalnámskrá frá 2011 og einnig í aðalnámskrá frá árinu 2006. Umhugsunarefni er einnig að markviss samvinna nemenda og sjálfstæði þeirra í námi fá lítið rými en hvort tveggja er hluti af þeirri lykilhæfni sem ný aðalnámskrá gerir ráð fyrir að einkenni nám nemenda.

Niðurhal

Útgefið

2015-09-13

Tölublað

Kafli

Ritstýrðar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)