Virðingarsess leikskólabarna - Þekking á barnaefni, kynjun og lagskipting í tveimur leikskólum

Höfundar

  • Þórdís Þórðardóttir

Lykilorð:

virðingarsess, barnaefni, jafningjahópur, kynjun, félagsleg staða, leikskóli

Útdráttur

Markmið rannsóknar þeirrar sem hér er greint frá er að varpa ljósi á hvernig mismunandi þekking leikskólabarna á barnaefni getur tengst kyni, uppruna og fé- lagslegri stöðu þeirra í leikskóla. Spurt var: Þekking á hvers konar barnaefni er líklegust til að skapa fjögurra til fimm ára börnum virðingarsess í leikskóla? Athugað var hvernig þekking fjórtán barna á því aldursbili í tveimur leikskólum í Reykjavík á barnabókum, mynddiskum, sjónvarpsefni og tölvuleikjum birtist í frjálsum leik og skapandi starfi. Virðingarsessinn var notaður sem mælitæki á félagslega stöðu barnanna og mældur út frá viðbrögðum jafningjahópsins við tilvísunum í barnaefni eftir því hvernig jafningjahópurinn staðfesti tilvísanir í barnaefnið, hafnaði þeim eða hundsaði þær. Mat kennara og svör foreldra við spurningalista um notkun barnaefnis á heimilum voru notuð til þess að setja þekkingu barnanna í víðara félags- og kenningalegt samhengi. Niðurstöður sýna hvernig þekking á barnaefni birtist í leikjum og hvernig hún var staðfest, hún hundsuð eða henni hafnað af jafningjahópnum. Þær sýna jafnframt að mat kennaranna og lýsingar foreldranna á notkun barnaefnis á heimilum voru í samræmi við það sem birtist í leikjunum. Þekking á ofurhetjum og tölvum skilaði drengjum hæsta virðingarsessi í leikskólunum. Þekking telpna á ævintýraefni sem inniheldur bæði spennu og tengsl skilaði einnig háum virðingarsessi þótt þekking telpnanna væri ekki staðfest jafn oft og þekking drengjanna. Börnin sem hlutu hæsta sessinn vísuðu oftar í barnaefni en hin börnin, voru í hópi elstu barnanna á deildunum og eiga háskólamenntaða foreldra. Börnin sem fylgdu fast á eftir þeim, töldust hafa öðlast meðalháan virðingarsess. Þessi börn höfðu almennt góða þekkingu á barnaefni en síðri þekkingu á tölvum og ofurhetjum en börn sem hæsta sessinn skipuðu. Foreldrar þeirra eru ýmist með stúdentspróf eða iðnmenntun. Börn sem nutu lítillar virðingar í jafningjahópnum notuðu sjaldan tilvísanir í barnaefni og þau voru börn foreldra sem höfðu einungis lokið grunnskólaprófi. Telpur staðfestu bæði þekkingu drengja og telpna en drengir staðfestu eingöngu þekkingu hvers annars.

Um höfund (biography)

Þórdís Þórðardóttir

Þórdís Þórðardóttir (thordisa@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í uppeldisog menntunarfræði frá Háskóla Íslands 2012, M.Ed.-prófi með áherslu á samanburðaruppeldisfræði frá Kennaraháskóla Íslands árið 2000, prófi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands árið 1995 og B.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá sama skóla 1993, Diploma í stjórnun og skipulagningu menntastofnana frá Social Pædagogiske Højskole í Kaupmannahöfn 1990 og leikskólakennaraprófi frá Fósturskóla Íslands 1974. Rannsóknir hennar beinast einkum að menntun, kyngervi og menningu ásamt þekkingar- og merkingarsköpun barna

Niðurhal

Útgefið

2015-09-13

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar