Drög að kortlagningu spænsku á Íslandi

Höfundar

  • Erla Erlendsdóttir
  • Hólmfríður Garðarsdóttir
  • Núria Frías Jiménez

Lykilorð:

lýðfræðimálvísindi, spænska í Evrópu, spænska á Ísland

Útdráttur

Í greininni er sagt frá samevrópsku rannsóknarverkefni sem hverfist um kortlagningu spænsku í Evrópu. Markmið verkefnisins er að grafast fyrir um stöðu spænskrar tungu í álfunni og freista þess að draga upp heildstæða mynd af notkun hennar utan hins spænskumælandi heims. Forgöngumenn rannsóknarverkefnisins eru fræðimenn frá háskólum á Spáni, Þýskalandi og Sviss. Einnig tekur Cervantes-stofnunin þátt í verkefninu. Að verkefninu koma um 30 sérfræðingar og fræðimenn frá ýmsum löndum í Evrópu. Hver verkefnishópur hefur á sinni könnu eitt eða fleiri lönd. Íslensku þátttakendurnir
eru í hópi með fræðimönnum frá öðrum Norðurlöndum en í hópnum eru sérfræðingar frá Árósum, Kaupmannahöfn, Osló, Reykjavík, Stokkhólmi og Tampere. Niðurstöður rannsóknarverkefnisins í hinum ýmsu löndum verða gefnar út á bók í ritröðinni Kortlagning spænsku í Evrópu. Fyrsta heftið í ritröðinni kom út árið 2020 og fjallar um kortlagningu spænsku í Þýskalandi. Á næstunni
er von á niðurstöðum rannsóknarhópa í Sviss og Portúgal. Verkefnishóparnir fylgja sama verklagi og aðferð í öflun og greiningu gagna sem gerir kleift að bera saman niðurstöðu á milli Norðurlanda annars vegar og einstakra landa Evrópu hins vegar. Í rannsóknarverkefninu er aðferðum Moreno Fernández og Otero
Roth fylgt en þeir hafa um langt árabil haft forystu um rannsóknir á þessu sviði í spænskumælandi löndum heims, einkum Spáni. Í rannsókninni er byggt á lýðfræðilegum upplýsingum og fellur nálgunin undir það sem kallast lýðfræðimálvísindi, nálgun sem beitir einnig aðferðum félagsmálvísinda. Málhafar eru taldir og flokkaðir eftir færnistigum. Þar ber fyrst að nefna móðurmálshafa, í annan stað málhafa með takmarkaða málfærni og í þriðja lagi þá einstaklinga sem hafa tileinkað sér spænsku sem annað mál og búa yfir mismunandi og
jafnvel takmarkaðri málfærni.

Lykilorð: lýðfræðimálvísindi, spænska í Evrópu, spænska á Ísland

Niðurhal

Útgefið

2022-12-28

Tölublað

Kafli

Greinar