Framvinda og áhrifaþættir í opnum málanámskeiðum á netinu
Lykilorð:
annarsmálsnám, opin tungumálanámskeið á netinu, tölvustudd málakennsla og -nám, kennslufræðilegir þættir námsefnis, stuðningur kennara, blönduð rannsóknaraðferð, Icelandic OnlineÚtdráttur
Alþjóðlegar rannsóknir á notkun opinna málanámskeiða á netinu sýna að hlutfallslega fáir ljúka námskeiðum. Spurningar hafa því vaknað um gæði slíkra námskeiða, kennslufræðina og námsumgjörðina. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að greina þætti sem hafa áhrif á framvindu (e. retention) í opnum netnámskeiðum og varpa ljósi á kennsluaðferðir og námsumgjörð sem gætu átt þátt í að auka þátttöku nemenda. Byggt var á gögnum frá nemendum í sjö netnámskeiðum Icelandic Online (IOL) í íslensku sem öðru máli sem eru sjálfstýrð og gagnvirk, ætluð fullorðnum. Tvö námskeiðanna eru tiltæk undir umsjón kennara: í blandaðri námsumgjörð og fjarnámsumgjörð. Rannsóknin grundvallaðist á blandaðri rannsóknaraðferð. Stuðst var við a) megindleg gögn úr rakningarkerfi (e. tracking system) frá nemendum úr öllum IOL námskeiðunum (n = 43.468), b) megindleg gögn úr spurningakönnun (n = 400) frá nemum úr einu námskeiði auk c) eigindlegra gagna (174 svarendur) úr einu námskeiði sem aflað var í spurningakönnun. Athugað var hvort eftirfarandi þættir í IOL hefðu áhrif á þátttöku og námsframvindu: a) Efnis- og kennslufræðilegir þættir, b) stuðningsþættir kennara, c) markmið nemenda m.t.t. þátttöku og d) aldur/kyn. Einnig voru nemendur beðnir um að tilgreina hvað hefði hvatt þá til að klára eða latt þá. Þessi grein byggist á áður birtum tímaritsgreinum um framvindu og áhrifaþætti í opnum málanámskeiðum á netinu (Kolbrún Friðriksdóttir 2018, 2021a, 2021b). Niðurstöður byggðar á rakningargögnum sýndu að hlutfallslega fáir luku námskeiðum og að nemar í blandaðri námsumgjörð kláruðu frekar en aðrir nemar. Greining á brotthvarfsmynstri og þátttökumynstri leiddi jafnframt í ljós að brotthvarfshætta er mest í upphafi námskeiða og að margir luku meirihluta námsefnis jafnvel þótt þeir kláruðu ekki námskeiðið. Niðurstöður úr spurningakönnuninni sýndu að meirihluti taldi efnis- og kennslufræðiþættina sex sem voru til skoðunar eiga mikilvægan þátt í að hvetja þá áfram í námskeiðinu. Þrír þáttanna höfðu áhrif á framvindu samkvæmt mælingum rakningarkerfisins. Varðandi stuðning kennara töldu flestir þættina fjóra sem voru til athugunar hafa hvetjandi áhrif á þátttökuna. Þeir höfðu jákvæð áhrif á framvindu nemenda í blönduðu námi en ekki í fjarnámi. Einnig sýndu niðurstöðurnar að meirihluti hafði ætlað sér að ljúka námskeiði og að sá þáttur hefði áhrif á námsframvindu. Aldur reyndist
hafa neikvætt forspárgildi m.t.t. framvindu en ekki kyn. Loks leiddi þemagreining eigindlegra gagna í ljós margvíslegar ástæður þess að nemendur luku námskeiði eða hættu. Heildarniðurstöðurnar sýna fram á margvíslega þætti sem hafa áhrif á þátttöku og framvindu í opnum málanámskeiðum á netinu og fela í sér mikilsvert innlegg í fræðilega umræðu um þróun slíks efnis.
Lykilorð: annarsmálsnám; opin tungumálanámskeið á netinu; tölvustudd
málakennsla og -nám; kennslufræðilegir þættir námsefnis; stuðningur kennara; blönduð rannsóknaraðferð; Icelandic Online