Innsýn og aukin færni: Að „lesa“ menningu þjóða með aðstoð kvikmynda

Höfundar

  • Hólmfríður Garðarsdóttir

Lykilorð:

Tungumálanám, menningarlæsi, kvikmyndir og Rómanska-Ameríka

Útdráttur

Í greininni er sjónum beint að hentugleika kvikmynda sem kennsluefnis í tungumálanámi. Tíundaðar eru kenningar um nauðsyn þess að höfða til áhugasviðs nemenda við val á efni og verkefnum og mikilvægi þess að greina sálfélagslegar breytur nemendahópsins, þ.e. hvers vegna og til hvers nemandi stundi viðkomandi nám, hvað veki áhuga hans/hennar, og hverju námsumhverfið skipti. Mikilvægi upplifunar og fræðilegs innlags er ítrekað ásamt því að rætt er hvaða aðferðum megi beita til að auka hæfni og færni í lestri, ritun, hlustun og talfærni með fulltingi kvikmynda. Áherslur greiningarinnar hverfast um nám í spænsku og um fjölmenningarlegan veruleika Rómönsku-Ameríku. Stuttlega er gerð grein fyrir þróun kvikmyndagerðar í álfunni og stiklað á stóru um efnistök kvikmynda á mismunandi tímabilum. Haft er að leiðaljósi að kvikmyndir endurspegla og endurskapa það umhverfi sem þær spretta úr og að hver mynd er sérstakur heimur og fjársjóður fróðleiks. Rakið er hvernig sjónarhorn kvikmyndagerðarfólks hefur breyst í tímans rás og útskýrt hvernig myndirnar gefa nemendum kleift að rýna í samfélögin sem um ræðir. Brugðið er upp svipmyndum af efnistökum þó nokkurra kvikmynda og dæmi sett fram um þá fjölmörgu menningarkima sem þær beina sjónum að. Tiltekið er hvernig vekja mætti athygli og áhuga nemenda á sögu ólíkra landa, samskiptum þjóðfélagshópa, jaðarsetningu frumbyggja, stöðu konunnar, umhverfismálum, misskiptingu, lifnaðarháttum í risaborgum jafnt sem í dreifbýli álfunnar o.fl.


Lykilorð: Tungumálanám, menningarlæsi, kvikmyndir og Rómanska-Ameríka

Niðurhal

Útgefið

2022-12-28