Upplýsingar fyrir ritrýna

Stjórnmál og stjórnsýsla er vísindatímarit sem birtir niðurstöður rannsókna á íslenskum stjórnmálum og viðfangsefnum sem tengjast opinberri stefnumótun. Greinar með víðari skírskotun koma þó einnig til álita, einkum greinar sem uppfylla gæðaviðmið tímaritsins og beita samanburðaraðferðum eða gera grein fyrir kenningarlegum eða aðferðafræðilegum nýjungum.  Tímaritið tekur við greinum stjórnmálafræðinga og fræðimanna á skyldum sviðum sem fjalla um stjórnmál, opinbera stjórnsýslu og efni sem tengjast opinberri stefnumótun.

Tímaritið birtir greinar á ensku eða íslensku. Þegar greinar eru skrifaðar á íslensku þarf að fylgja þeim útdráttur á ensku.

Stjórnmál og stjórnsýsla er ritrýnt tímarit með „gagnkvæmri leynd“ (e. double blind) þar sem umsagnaraðilar fá ekki upplýsingar um greinarhöfunda og greinarhöfundur ekki upplýsingar um ritrýna. Siðareglur fyrir tímaritið eru á ensku. Vegna smæðar hins íslenska fræðasamfélags er mælt með því að greinarhöfundar jafnt sem ritrýnar gangi þannig frá innsendu efni að líkur á að efni sé rekjanlegt séu sem minnstar.

Höfundar og ritrýnar skila efni sínu gegnum OJS vefumsjónar- og ritstjórnarkerfi tímaritsins. Ritrýnar þurfa að skrá sig inn í kerfið og fara eftir leiðbeiningum um skráningu og skil á ritrýni til tímaritsins. Til að grein fáist birt í tímaritinu þarf að vera nýnæmi að efninu og það er greinarhöfunda að sýna fram á í hverju það felst. Efni sem birst hefur áður í bókum eða fræðitímaritum er að öðru jöfnu ekki tekið til birtingar í tímaritinu. Nýnæmi getur falist í kenningarlegu framlagi, aðferðafræði og því að ný gögn séu kynnt.

Algeng krafa tímarita í félagsvísindum til greina er að þar megi finna eftirfarandi:

  1. Greinargerð um nýnæmi rannsóknar. Að öðru jöfnu er gert ráð fyrir að fræðilegur rammi tengist fræðasviðum stjórnmálafræðideildar eða að um sé að ræða aðra augljósa tengingu við stjórnmála- og stjórnsýslufræði.
  2. Yfirlit yfir skrif annarra fræðimanna og rannsóknir sem tengjast efninu.
  3. Skýringu á hugtökum, mælingum og aðferðafræði rannsóknarinnar.
  4. Greiningu á þeim gögnum sem aflað var.
  5. Greinargerð um helstu niðurstöður.
  6. Umræðu um niðurstöður í samhengi við þann fræðilega ramma sem kynntur var í upphafi.

Tímaritið tekur við greinum frá stjórnmála- og stjórnsýslufræðingum, en einnig greinum af öðrum fræðasviðum þegar efnið þeirra tengjast íslenskum stjórnmálum eða opinberri stjórnsýslu og stefnumótun. Því eru oft birtar greinar eftir félagsfræðinga, hagfræðinga, heimspekinga, lögfræðinga, sagnfræðinga og viðskiptafræðinga þegar efni greina þeirra tengist stjórnmálum, stjórnsýslu og/eða opinberri stefnumótun.

Niðurstöður ritrýni geta verið:

  1. að grein sé samþykkt óbreytt (sem er fremur sjaldgæft);
  2. að grein sé samþykkt með athugasemdum (óskað eftir greinargerð um hvernig tillit hefur verið tekið til þeirra);
  3. að athugasemdir við grein séu verulegar, en boðið að senda grein inn á ný í ritrýni eftir að tekið hefur verið tillit til þeirra (sömu ritrýnar);
  4. að grein sé hafnað.

Verði umsagnaraðilar ekki sammála um niðurstöðu gerist það annað hvort að ritstjórn sker úr um vafaatriði eða þriðji umsagnaraðili er kallaður til.

Ritrýnar skila skriflegu áliti inn í OJS kerfið á svæði greinarinnar með rökstuddri niðurstöðu og nauðsynlegt er að þeir dragi niðurstöður sínar saman í stuttu máli.

Gæta þarf nærfærni í samskiptum við greinarhöfunda. Þeir eru stundum ungir fræðimenn að stíga sín fyrstu skref á braut greinaskrifa og mikilvægt að þeir upplifi það að fá viðbrögð við grein – hvort sem henni er hafnað eða ekki – sem jákvæða og lærdómsríka reynslu. Ritrýnar eru beðnir um að láta vera að giska á bakgrunn höfunda eða ræða ímyndaða eiginleika þeirra. Reynslan sýnir að slíkar ágiskanir eru oft rangar og í sumum tilvikum til þess fallnar að varpa rýrð á gæði ritrýninnar. Grein ber að ritrýna eftir eigin verðleikum, ekki höfundar.

Æskilegt er að ritrýnar tilgreini fyrst í stuttu máli hvert þeir telja vera framlag umræddrar greinar og leggi í framhaldinu áherslu á þau atriði sem þeir telja vera meginatriði mögulegra athugasemda. Ritrýnum er frjálst að koma jafnframt með ábendingar um hluti sem betur mættu fara, án þess að gera breytingar að skilyrði fyrir birtingu. Niðurstöður ritrýni þurfa hins vegar að vera skýrar um það hvort grein sé samþykkt til birtingar og ef hún er samþykkt með fyrirvara um breytingar, hverjar þær séu. Athugasemdirnar geta varðað niðurröðun efnis, hvort samfellu skorti í röksemdafærslu, hvort fullyrðingar séu órökstuddar, vinnubrögð ófagleg, heimildanotkun ósamkvæm, fyrri rannsóknir á efninu sniðgengnar, stíl og framsetningu ábótavant o.s.frv. Umsagnaraðilar eru beðnir um að koma með tillögur um styttingar ef greinin er í lengra lagi og benda á óþarfa útúrdúra eða leiðir til að gera greinina hnitmiðaðri og læsilegri.

Sé grein hafnað er æskilegt að ritrýnir bendi á annan birtingarvettvang sem hentað gæti efninu með breytingum eða án.