Upplýsingar fyrir höfunda
Til að grein sé tekin til ritrýni í Stjórnmálum og stjórnsýslu þarf hún að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Hún þarf að falla að áherslusviði tímaritsins, sem er stjórnmálafræði.
- Hún þarf að fjalla um kenningar sem tengjast efni hennar auk þess sem skýr rannsóknarspurning er sett fram. Greinar sem eru fyrst og fremst lýsandi eru ekki teknar til ritrýni né heldur greinar sem ekki eru á sviði tímaritsins.
- Aðferðafræði greinarinnar þarf að hæfa efni hennar og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í hliðstæðum tímaritum.
Höfundar eru beðnir um að tiltaka hvaða fræðasviði þeir telji grein sína helst tilheyra:
- Alþjóðastjórnmál
- Íslensk og samanburðarstjórnmál
- Opinber stjórnsýsla og stefnumótun
- Stjórnmálakenningar og -heimspeki
- Annað, þar á meðal greinar sem fjalla um kynjafræði með áherslu á stjórnmál, pólitíska þætti í fjölmiðlun, pólitíska félagsfræði, stjórnmálahagfræði eða stjórnmálasögu. Grein með víða skírskotun sem á erindi við fræðafólk í stjórnmála- og stjórnsýslufræðum getur komið til álita.
Við ritrýni hafa umsagnaraðilar tímaritsins einkum eftirfarandi í huga:
Til að grein fáist birt í tímaritinu þarf að vera nýnæmi að efninu og það er greinarhöfunda að sýna fram á í hverju það felst. Nýnæmi getur falist í kenningarlegu framlagi, aðferðafræði og því að ný gögn séu kynnt. Greinarhöfundar gera grein fyrir nýnæmi og fræðasviði í stuttri greinargerð sem fylgi grein sem send er til birtingar í tímaritinu. Efni sem birst hefur áður í bókum eða fræðitímaritum er að öðru jöfnu ekki tekið til birtingar í tímaritinu.
Algeng krafa tímarita í félagsvísindum til greina er að þar megi finna eftirfarandi:
- Greinargerð um nýnæmi rannsóknar. Að öðru jöfnu er gert ráð fyrir að fræðilegur rammi tengist fræðasviðum stjórnmálafræðideildar eða að um sé að ræða aðra augljósa tengingu við stjórnmála- og stjórnsýslufræði.
- Yfirlit yfir skrif annarra fræðimanna og rannsóknir sem tengjast efninu.
- Skýringu á hugtökum, mælingum og aðferðafræði rannsóknarinnar.
- Greiningu á þeim gögnum sem aflað var.
- Greinargerð um helstu niðurstöður.
- Umræðu um niðurstöður í samhengi við þann fræðilega ramma sem kynntur var í upphafi.
Birting greina í Stjórnmálum og stjórnsýslu er háð því að handrit sé samþykkt eftir ritrýni. Tímaritið er ritrýnt með „gagnkvæmri leynd“ (e. double blind) þar sem umsagnaraðilar fá ekki upplýsingar um greinarhöfunda og greinarhöfundur ekki upplýsingar um ritrýna. Vegna smæðar hins íslenska fræðasamfélags er greinarhöfundum bent á þann möguleika að ganga frá sérstakri útgáfu greinarinnar þar sem ekki hafa aðeins verið tekin út nöfn höfunda í upphafi heldur einnig annað efni sem kann að gera greinina auðrekjanlega.
Niðurstöður ritrýni geta verið ferns konar:
- að grein sé samþykkt óbreytt (sem er fremur sjaldgæft);
- að grein sé samþykkt með fyrirvara um breytingar;
- að gerð sé krafa um viðamiklar breytingar og grein sé lögð aftur undir ritrýna;
- að grein sé hafnað.
Tímaritið birtir greinar á ensku eða íslensku. Þegar greinar eru skrifaðar á íslensku þarf að fylgja þeim útdráttur á ensku.
Tímaritið er gefið út á vefformi tvisvar á ári; vorhefti um miðjan júní og hausthefti um miðjan desember. Prentuð útgáfa fræðigreina beggja tölublaða fyrra árs kemur út í mars árið eftir.
Skilafrestur greina er: 1. apríl fyrir vorheftið og 1. október fyrir haustheftið. Skilafrestur vegna vorheftis 2023 er 11. apríl.
Greinar sem birtast í tímaritinu eru metnar til fimmtán (15) stiga í Matskerfi opinberra háskóla.
Þegar höfundur sendir í fyrsta sinn inn grein til birtingar þarf hann að skrá sig inn sem nýr notandi og skrá umbeðnar upplýsingar. Kerfið leiðir höfunda síðan áfram (undir HEIM f: NOTANDA) þar til grein hefur verið send inn rafrænt. Höfundur sem hefur áður skráð sig inn í kerfið þarf einfaldlega að skrá sig inn með notendanafni og lykilorði neðst til vinstri á síðunni eða fara í Innskrá á láréttu yfirstikunni, sem gerir það sama og hefja síðan fimm skrefa ferilinn á innsendingu greinar.
Höfundum sem vilja senda inn grein til birtingar í tímaritinu er bent á að lesa í leiðbeiningar til höfunda en þar er að finna leiðbeiningar um frágang greina. Siðareglur fyrir tímaritið eru á ensku og er hægt að nálgast hér.
Höfundar skila greinum inn í sniðmáti tímaritsins og er hægt að nálgast grunnskjal fyrir fræðigreinar grunnskjal fyrir fræðigreinar hér.Ritstjórn vefsins hefur netfangið stogst@hi.is og er lesendum veftímaritsins bent á að senda athugasemdir eða annað sem varðar útgáfu þess á þetta netfang.