Stofnunareðli framhaldsskóla í faraldurskreppu. Ný reynsla og breytt umboð skólastjórnenda

Höfundar

  • Guðrún Ragnarsdóttir
  • Jón Torfi Jónasson

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.13177/irpa.a.2022.18.2.6

Lykilorð:

COVID-19, framhaldsskólar, skólameistarar, aðstoðarskólameistarar, starfshættir, álag, stofnanakenningar.

Útdráttur

Á vormánuðum 2020 hóf COVID-19 innreið sína. Í kjölfarið var öll staðbundin kennsla í framhaldsskólum færð í fjarkennslu út vorönnina og um haustið breyttist fyrirkomulag skólastarfs ítrekað í takt við síbreytilegar sóttvarnareglur. Markmið þessarar rannsóknar er að öðlast skilning á verkefnum og aðstæðum skólastjórnenda, skólameistara og aðstoðarskólameistara, og samskiptum þeirra við ýmsa hagaðila úr ytra og innra umhverfi framhaldsskólanna á fyrsta ári faraldursins. Jafnframt er leitast við að skoða hvernig niðurstöðurnar speglast í nýstofnanakenningum (e. neo-institutional theories). Leitað var eftir reynslu skólastjórnenda við mjög breyttar aðstæður og breytt umboð þeirra til aðgerða. Byggt var á blandaðri rannsóknaraðferð. Stuðst var við gögn úr tveimur spurningalistakönnunum frá Menntavísindastofnun sem náði til framhaldsskólastigsins alls og sex viðtöl við skólameistara og aðstoðarskólameistara úr þremur framhaldsskólum. Vissir þættir starfsins losnuðu úr viðjum stofnanaramma framhaldsskólans, afstofnanavæddust (e. deinstitutionalised) og breyttust mikið í faraldrinum á meðan áherslur aðila úr ytra umhverfi skóla styrktu stofnanaumgjörð skólanna og drógu úr umboði skólastjórnenda til áhrifa. Rannsóknin staðfestir fyrri niðurstöður um að í sumum tilvikum sé eðlilegt að túlka viðbrögð skólastjórnenda sem viðbrögð stjórnenda skipulagsheilda (e. organizational leadership) og í öðrum tilfellum sem stjórnenda stofnana (e. institutional leadership). Samskiptaform milli ólíkra aðila breyttust og verkefni og verkaskipting þróuðust eftir því sem á leið. Samhliða auknu ákalli kennara um kennslufræðilegan stuðning tóku stjórnendur forystu um vissa tæknilega þætti. Þeir fóru þó ekki út fyrir það umboð sem þeir töldu sig hafa og virtu faglegt sjálfstæði kennara. Mikið álag var á skólastjórnendum og gjá myndaðist á milli starfsfólks að mati viðmælenda, einkum í upphafi faraldursins, sem aftur ýtti undir einangrun í starfi skólastjórnenda. Niðurstöðurnar vekja athygli á eðli skóla sem stofnana annars vegar og skipulagsheilda hins vegar og vekja upp áleitnar spurningar, m.a. um álag, verkaskiptingu og umboð stjórnenda til aðgerða. Þá dregur rannsóknin fram veikleika í samskiptum á milli ólíkra hópa í faraldrinum.

Um höfund (biographies)

Guðrún Ragnarsdóttir

Dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Jón Torfi Jónasson

Professor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

14.12.2022

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)