Sætaskipun á Alþingi

Höfundar

  • Þorsteinn Magnússon

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.13177/irpa.a.2014.10.2.3

Lykilorð:

Alþingi, sætaskipun, sætadráttur.

Útdráttur

Tæp hundrað ár eru liðin síðan samþykkt var á Alþingi að þingmönnum skyldi skipað til sætis með drætti við upphaf hvers þings. Sú skipan þekkist ekki nú meðal annarra þjóðþinga. Ekki hefur legið fyrir hvers vegna sætadráttur var innleiddur á Alþingi, hvernig framkvæmd hans hefur verið, hver hafa verið viðhorf þingmanna til sætadráttar eða hvort þetta fyrirkomulag hafi haft einhver áhrif á samskipti þingmanna og starfsemi Alþingis. Í þessari grein eru birtar niðurstöður fyrstu rannsóknar á þessu efni hérlendis. Jafnframt er sætaskipun Alþingis sett í alþjóðlegt samhengi, en meginreglan um heim allan er að þingmenn sitja saman í flokkahópum. Niðurstöður rannsóknarinnar eru m.a. þær að mestar líkur eru á því að fyrirmyndin að sætadrætti sé sótt til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, en þar tíðkaðist sætadráttur á árunum 1845- 1913. Þá leiðir rannsóknin í ljós að það liðu rúmlega 40 ár þar til sætadráttur festist að fullu í sessi á Alþingi. Í efri deild var á flestum þingum fram til 1959 fallið frá sætadrætti og virðast þingmenn þá einkum hafa setið eftir flokkum. Í neðri deild var algengt að ýmsir þingmenn skiptu á sætum að loknum sætadrætti og þar var líka um tíma uppi viðleitni til að koma á sætaskipun eftir flokkun en hún fékk ekki hljómgrunn. Síðan 1959 hefur ekki verið neinn ágreiningur um sætadrátt. Almennt virðast alþingismenn þeirrar skoðunar að sætaskipun Alþingis hafi jákvæð áhrif á samskipti þingmanna, sé jákvætt mótvægi við skiptingu þingheims í stjórnarliða og stjórnarandstæðinga og auk þess sé sætadráttur sanngjörn leið til að skipa mönnum til sætis. Reynslan af sætadrætti á Alþingi er því vísbending um að það geti skipt máli fyrir þingmenn hvernig sætaskipun er háttað.

Um höfund (biography)

Þorsteinn Magnússon

Ph.D, aðstoðarskrifstofustjóri á Alþingi.

Niðurhal

Útgefið

15.12.2014

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar